Enski boltinn

Blind: Pabbi rétti maðurinn fyrir landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Daily Blind, varnarmaður Manchester United og hollenska landsliðsins, segir að faðir hans, Danny, eigi að halda starfi sínu sem landsliðsþjálfari þó svo að Hollandi myndi mistakast að komast á EM í Frakklandi.

Holland er í sama riðli og Ísland í undankeppninni en er nú í fjórða sæti og á í harðri baráttu við Tyrki um það þriðja. Ísland og Tékkland eru komin áfram en þriðja sætið veitir þátttökurétt í umspilskeppninni í næsta mánuði.

Holland þarf helst að vinna báða leiki sína, gegn Kasakstan og Tékklandi, og stóla á að Tyrkland misstígi sig í öðrum sinna leikja.

„Þetta er erfið spurning en ég tel að þjálfarinn eigi að halda starfi sínu eftir EM 2016, jafnvel þótt okkur mistakist að komast til Frakklands,“ sagði Blind yngri við hollenska fjölmiðla.

„Ég styð alltaf við bakið á landsliðsþjálfaranum. Ég gerði það þegar Louis van Gaal var í því starfi sem og hjá Guus Hiddink.“

Danny Blind tók við starfinu í sumar eftir að Hiddink hætti en Holland tapaði fyrir Íslandi í fyrsta leik sínum undir stjórn Blind eldri.

„Við skulum ekki gleyma því að hann tók við liðinu á erfiðum tíma. Ég vissi vel að hann yrði gagnrýndur enda ekki von á öðru. Það truflar mig ekki og það truflar föður minn ekki heldur.“

Holland mætir Kasakstan á morgun en Tékklandi á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×