Fótbolti

Hannes Þór skrifar handrit að hrollvekju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hannes Þór og félagar fagna 2-1 sigrinum á Tékkum í júní.
Hannes Þór og félagar fagna 2-1 sigrinum á Tékkum í júní. Vísir/Ernir
Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er fyrsta flokks leikstjóri eins og íþróttaáhugamenn á Íslandi eru meðvitaðir um. Hann segist í dag fyrst og fremst einbeita sér að fótboltanum þótt hann sé með eitt gott gæluverkefni á kantinum meðfram æfingum og leikjum með NEC Nijmegen.

„Ég er eiginlega í góðri pásu,“ segir Hannes Þór sem leikstýrði meðal annars fyrstu seríunni af Atvinnumönnunum okkar. Hannes vann sem leikstjóri hjá Sagafilm áður en hann hélt í atvinnumennsku.

Ætlar sér langt í kvikmyndagerð

„Ég er aðeins að fikta í gæluverkefnum sem ég hafði engan tíma til að fikta í áður,“ segir markvörðurinn. Hans markmið sé að þróa sig sem kvikmyndagerðarmaður eftir ferilinn og fara að búa til kvikmyndir í fullri lengd. Í smíðum er handrit að einni slíkri.

„Það verður vonandi mín fyrsta bíómynd,“ segir Hannes en bætir við að sú vinna gangi hægt enda hafi fótboltinn algjöran forgang og þannig verði það næstu árin. En hvernig mynd er Hannes Þór að skrifa handrit að?

„Þetta verður spennumynd, hrollvekja.“

Engin miskunn að læra hollensku

Hannes samdi við hollenska félagið í sumar en hvernig gengur að læra hollenskuna?

„Ég er að reyna og þetta mjakast. Ég ætla í tíma fljótlega,“ segir Hannes. Hann sé þó með smáforrit sem hjálpi mikið.

„Hollendingarnir eru mjög harðir á því að tala enga ensku við þig og pína mann til að læra hollensku. Það er engin miskunn með það. Maður á að læra þetta á núll einni en ég er að reyna mitt besta.“


Tengdar fréttir

Hollensk áhrif í íslenska liðinu

Eiður Smári Guðjohnsen, Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson, Ari Freyr Skúlason og Jóhann Berg Guðmundsson stigu allir fyrstu skrefin í atvinnumennsku í Hollandi og Alfreð Finnbogason raðaði inn mörkum í hollensku deildinni. Hjálpar þetta íslenska liðinu á móti Hollendingum á morgun?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×