Fótbolti

Jón Daði: Varnarleikurinn var stórkostlegur

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvellinum skrifar
Jón Daði lék varnarmenn Hollands stundum grátt.
Jón Daði lék varnarmenn Hollands stundum grátt. vísir/andri marinó
„Þetta er alveg frábært, frábær dagur fyrir íslensku þjóðina,“ sagði Jón Daði Böðvarsson sem átti magnaðan leik í framlínu Íslands gegn Hollandi á Laugardalsvelli í kvöld.

„Varnarleikurinn var stórkostlegur. Við fundum okkur vel, allir sem einn, og það skilaði þessum sigri í kvöld,“ sagði Jón Daði, en komu Hollendingar honum á óvart í leiknum?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Við vissum að þeir væru virkilega góðir á boltanum og með vel spilandi lið. Þetta eru allt heimsklassa leikmenn.

„Við framkvæmdum það sem við fórum yfir, lokuðum hættulegum svæðum og á hættulega leikmenn og mér fannst það ganga upp,“ sagði Selfyssingurinn sem skilaði mikilli og góðri varnarvinnu ásamt Kolbeini Sigþórssyni, félaga sínum í framlínu íslenska liðsins.

„Við finnum okkur vel saman, eins og allt liðið. Varnarleikurinn byrjar á fremstu mönnum og við reynum að vinna vel fyrir liðið,“ sagði Jón Daði en uppgangur hans með íslenska landsliðinu hefur verið með ólíkindum.

„Ég hef sagt það áður að þetta hefur gengið framar vonum. Þetta er búið að vera stórkostlegt og hefur gengið mjög hratt fyrir sig. Ég hef komið virkilega vel inn í hópinn og passa vel inn í leikskipulag liðsins. Mér líður virkilega vel í landsliðinu og er stoltur í kvöld“ sagði Jón Daði að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×