Fótbolti

Robben: Hrósa Íslandi fyrir góðan varnarleik

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Arjen Robben reynir að komast framhjá Ara Frey.
Arjen Robben reynir að komast framhjá Ara Frey. vísir/villi
Arjen Robben hrósaði íslenska liðinu fyrir góðan varnarleik eftir 2-0 sigur Íslands á Hollandi í kvöld en sagði jafnframt að Holland hafi gefið Íslandi tvö mörk í leiknum.

„Þetta eru vonbrigði. Auðvitað vildum við vinna leikinn en það ber að hrósa Íslandi sem vann vel fyrir sigrinum en við hjálpuðum þeim með mörkunum sem þeir skoruðu. Það voru tvær gjafir frá okkur,“ sagði Arjen Robben sem átti í vandræðum á hægri kantinum fyrir Holland í kvöld.

„Þegar maður gefur svona mörk þá gerir maður sér hlutina full erfiða.

„Íslendingar komu ekkert á óvart. Við vissum fyrir leikinn að þeir væru  með mjög gott lið. En þetta snýst ekki bara um Ísland heldur líka um Holland.

„Við lékum ekki vel með boltann. Við fengum ekkert pláss og náðum ekki að skapa okkur pláss. Við náðum ekki koma boltanum á fremstu menn í góðum stöðum. Þá verður þetta erfitt en enn frekar svo ef þú gefur tvö mörk,“ sagði Robben sem sá enga ástæðu til að gagnrýna stífan varnarleik Íslands.

„Það er þeirra réttur að leika svona. Það ber að hrósa þeim fyrir að verjast vel. Ef þeir verjast vel þá verðum við að tryggja að við fáum ekki á okkur mark og alls ekki að gefa mark svona auðveldlega.

„Við skulum samt hafa á hreinu að við vinnum sem lið og við töpum sem lið. Það er engin ástæða til að benda á hvern annan eða benda á varnarmennina og hvern sem gerði mistök.

„Við fengum þrjú  mjög góð færi í fyrri háflleik og hefðum átt að skora. Við töpuðum sem lið.

„Staðan í riðlinum er ekki góð og við megum ekki hætta. Það á eftir að leika marga leiki en Ísland og Tékkland með 9 stig eru í góðri stöðu. Við erum búnir að mæta þeim báðum á útivelli okkur má ekki mistakast aftur,“ sagði Robben.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×