Fótbolti

Pahars leggur mikla áherslu á leikskipulag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pahars og hollenski varnarmaðurinn Jaap Stam í skallaeinvígi á EM 2004.
Pahars og hollenski varnarmaðurinn Jaap Stam í skallaeinvígi á EM 2004. Vísir/Getty
Marian Pahars er einn þekktasti knattspyrnumaður Lettlands hin síðari ár en þessi 38 ára fyrrum sóknarmaður Southampton er nú landsliðsþjálfari Lettlands. „Hann býr ekki yfir mikilli reynslu sem þjálfari,“ sagði Ilvars Koscinkevis, blaðamaður hjá Sporta Avize tímaritinu í samtali við Fréttablaðið í Riga í gær.

„En ég hef tekið eftir því á æfingum landsliðsins að hann leggur mikla áherslu á aðferðafræðina og leikskipulag. Liðið spilar því skynsamlega undir hans stjórn,“ segir Koscinkevis en Lettland saknar margra lykilmanna vegna meiðsla auk þess sem að aðrir eru í lítilli leikæfingu.

Pahars lék með Southampton frá 1999 til 2006 og svo á Kýpur í eitt ár áður en hann sneri eftur til uppeldisfélagsins Skonto. Hann gerðist aðstoðarþjálfari síðastnefnda liðsins árið 2010 og tók við því ári síðar.

Hann tók við U-21 landsliði Lettlands í ársbyrjun 2013 og svo A-landsliðinu í júlí sama ár þegar Aleksandrs Starkovs hætti. Liðið vann aðeins einn af fyrstu fimm leikjum sínum undir hans stjórn en hefur ekki tapað fjórum í röð og haldið hreinu í þeim öllum.

„Það er mikil orka í kringum hann og ég tel að hann sé góður kostur fyrir Lettland,“ segir Koscinkevis sem stakk upp á því á sínum tíma að knattspyrnusamband Lettlands leitaði til Lars Lagerbäck þegar það var í þjálfaraleit á sínum tíma - áður en Lagerbäck tók við Íslandi.

„Það var ekki hlustað á það,“ segir hann í léttum dúr. „En ég tel að hann geti náð góðum árangri með liðið. Það sem kemur helst í veg fyrir það eru meiðslavandamál liðsins sem eru mikil um þessar mundir.“


Tengdar fréttir

Lars: Áttum gott spjall við Eyjólf

A-landsliðið nýtur krafta Jóns Daða Böðvarssonar en ekki U21 árs liðið sem á fyrir höndum mikilvæga leiki gegn Dönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×