Fótbolti

Theodór Elmar: "Ég var með stöðuga gæsahúð síðustu fimmtán mínúturnar“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir fagna í kvöld.
Strákarnir fagna í kvöld. Vísir/Anton
„Þetta var frábær leikur og við framkvæmdum hann fullkomlega, fylgdum leikplaninu sem gekk fullkomlega upp. Skyldum þá eftir með núll stig og núll mörk. Þetta var verðskuldað,“ sagði Theodór Elmar Bjarnason að leik loknum.

Emmi átti flottan leik í stöðu hægri bakvarðar en það kom nokkuð á óvart að hann var í byrjunarliðinu. Þá stöðu spilaði Birkir Már Sævarsson nánast alla síðustu undankeppni.

„Ég fékk traustið hjá þjálfaranum og maður verður að grípa sína sénsa. Maður fær ekki marga í nútímaboltanum. Mér fannst ég leysa það mjög vel í dag og fæ vonandi aftur sénsinn.“

Vörnin stóð allt af sér og Emmi benti á að Tyrkir hefðu aðeins fengið eitt gott færi í leiknum.

„Þetta er algjör klisja en við vörðumst allir sem einn. Það gerði okkur í vörninni þetta auðveldara. Ef við spilum svona sem lið verður alltaf erfitt að koma hingað í Laugardalinn. Og með þennan stuðning. Ég var með stöðuga gæsahúð síðustu fimmtán mínúturnar.“

Emmi hefur eins og flestir upplifað súr og sæt augnablik á ferlinum. En hvar staðsetur hann kvöldið á þeim lista?

„Þetta kvöld er á toppnum eins og er og verður seint toppað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×