Leikjavísir

"Besta Fanfestið til þessa"

„Þetta var besta Fanfestið til þessa," segir Oddur Örn Halldórsson, Fanfest stjórnandi og viðburðarstjóri CCP. Rúmlega þúsund EVE Online spilarar og tölvuleikjaaðdáendur heimsóttu Hörpuna um helgina og áttu þar góða stund saman.

Oddur segir að gríðarleg stemning hafi verið í Hörpunni um helgina. „Það er einna helst að þakka Hörpunni sjálfri," segir Oddur. „Spilararnir töluðu um að húsið væri í raun eins og geimskip úr EVE Online."

Hátíðinni lauk síðan á laugardagskvöld en þá stigu hljómsveitirnar Gus Gus og Ham á stokk í Hörpunni. „Það voru um 2.500 manns á tónleikunum," segir Oddur. „Á síðasta ári héldum við stærsta partý Íslandssögunnar en við ákváðum að breyta til í ár. Það var aðeins minna af fólki en stemningin var samt sem áður góð. Þetta var mun meira partý heldur en tónleikar."

Á hátíðinni kynnti CCP þær nýjungar sem fyrirtækið mun ráðast í á komandi mánuðum og árum. Oddur segir að spilararnir hafi verið gríðarlega ánægðir með þá stefnu sem CCP hafi myndað. Þá var tölvuleikurinn DUST 514 heimsfrumsýndur á hátíðinni og var hann því í fyrirrúmi.

„Í sannleika sagt voru spilararnir fullir efasemda í garð DUST 514," segir Oddur. „Okkur tókst þó að sannfæra þá og voru flestir afar ánægðir eftir að hafa fengið að spila leikinn."

DUST 514 markar tímamót í sögu leikjaiðnaðarins. Leikurinn verður aðeins fáanlegur á Playstation 3 leikjatölvunni og geta allir spilarar eignast leikinn sér að kostnaðarlausu. Þá munu spilarar á PlayStation 3 og PC geta unnið saman og er þetta í fyrsta sinn sem slíkt er reynt.

En þessi byltingarkenndi tölvuleikur var þó ekki eina nýjungin sem kynnt var á hátíðinni. CCP opinberaði einnig næstu uppfærslu fyrir EVE Online en hún nefnist Inferno.

Þá opinberaði CCP einnig myndskeið úr tölvuleiknum World of Darkness sem fyrirtækið hefur þróað síðustu ár.

Hægt er að sjá myndskeið sem CCP lét vinna fyrir Fanfest hátíðina hér fyrir ofan. Í því er varpað ljósi á hvernig DUST 514 kemur til með hafa áhrif á EVE Online sýndarheiminn.


Tengdar fréttir

Fanfest vekur athygli víða um heim

Mikið hefur verið dýrðir í Hörpunni frá því að Fanfest hátíðin hófst þar í gær. Rúmlega 1.500 spilarar og aðdáendur EVE Online tölvuleiksins hafa heimsótt tónlistarhúsið. Þá hafa þúsundir fylgst með fyrirlestrum tengdum EVE Online og DUST 514 í gegnum netið.

Fanfest: Þjóðhátíð tölvuleikjaspilara

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP kynnti nú síðdegis nýjan tölvuleik fyrir Play Station leikjatölvur. Leikurinn hefur verið í þróun í fjögur ár og markar hann tímamót í tölvuleikjaiðnaði heimsins segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Árshátíð CCP - DUST 514 heimsfrumsýndur

"Við erum beinlínis að taka yfir Hörpuna," segir Eldar Ástþórsson, verkefnastjóri markaðsdeildar CCP. Fanfest hátíðin hófst í dag en þar mun tölvuleikjaframleiðandinn CCP heimsfrumsýna nýjustu afurð sína - DUST 514.

CCP með fyrirlestur í Hörpu

Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP stendur fyrir opnum fyrirlestri og kynningu á starfsemi fyrirtækisins í Hörpunni á morgun. Rætt verður um fjölspilunarleikinn EVE Online og EVE Fanfest hátíðinni sem haldin verður í tónlistarhúsinu um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×