Sport

Bætt afkoma hjá Tottenham

Úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspurs lagði fram ársreikninga sína í morgun og þar sýndi félagið fram á bætta afkomu frá árinu þar á undan. Eftir að 2,7 milljóna punda halli var á rekstri félagsins á árinu 2003-04, hefur það nú sýnt fram á 4,1 milljón punda hagnað á síðasta reikningsári. Félagið hefur verið mjög duglegt á leikmannamarkaðnum á síðustu misserum, en flestir þeirra mörgu leikmanna sem félagið hefur keypt, hafa verið ungir og tiltölulega ódýrir, en auk þess hefur félagið selt nokkuð marga leikmenn og þannig náð að halda fjármálunum nokkuð í jafnvægi. Daniel Levy, stjórnarformaður félagsins, segir að þessi bætta rekstrarafkoma beri þess vitni að bjartir tímar séu framundan hjá félaginu og segir að nú sé lag að fylgja því eftir með góðum árangri á knattspyrnuvellinum. "Það tekur vissulega tíma að móta lið með það fyrir augum að ná árangri, en ég tel að við höfum styrkt liðið nægjanlega til að taka næsta skref í átt að meiri framförum. Kjarni leikmanna liðsins er frekar ungur og hjá okkur leika mjög efnilegir knattspyrnumenn. Ef svo fer sem horfir, ættum við að vera að horfa á góðar framfarir á næstu árum," sagði Levy.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×