Sport

Logi lenti í hörðum árekstri

Logi Ólafsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, lenti í gær í alvarlegum árekstri við 17 tonna malarflutningabíl fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ. Bíll Loga er líklega ónýtur en betur fór en á horfðist því hann slapp með minniháttar meiðsli. Logi sagði í samtali við íþróttadeildina að hann hefði verið að keyra frá Laugardalsvellinum þegar malarflutningabíllinn keyrði á vinstra frambrettið. Malarflutningabíllinn var að keyra efni vegna framkvæmda við stækkun stúkunnar í Laugardalnum. Logi var fluttur á slysadeild þar sem gert var að sárum hans. "Ég prísa mig sælan að vera þó ekki með meira en tvö göt á hausnum og sokkið auga. Hefði malarflutningabílinn lent hálfum metra innar og á bílstjórahurðina værum við ekki að ræða málin núna. Það má segja að þetta hafi verið lán í óláni," sagði Logi, sem hafði nýlokið við að velja íslenska landsliðið fyrir leikina gegn Pólverjum og Svíum þegar hann ók frá höfuðstöðvum KSÍ. Logi átti að lýsa stórleik Liverpool og Chelsea í Meistaradeildinni í gær en var fjarri góðu gamni vegna árekstrarins. Hann verður hins vegar tilbúinn til starfa fyrir landsleikina 7. og 12. október næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×