Innlent

Kennarar vilja launapottana burt

Launanefnd sveitarfélaganna bað um frest á fundi kennara upp úr klukkan sex í gærkvöldi. Launanefndin vildi fara yfir hugsanlegar leiðir til að mæta kröfu kennara um að fella svokallaða launapotta úr kjarasamningunum. Birgir Björn Sigurjónsson formaður launanefndar sveitarfélaganna segir kennara ekki hafa haft mikið til málanna að leggja á fundinum í gær nema þá ófrávíkjanlega kröfu að launapottarnir yrðu felldir niður. "Við ákváðum að skoða hvort við hefðum nýjar leiðir fram að færa eða hvort þetta yrði þá eitt af þeim málum sem gæti strandað á," segir Birgir: "Okkur finnst vont að missa alla möguleika á að umbuna kennurum fyrir aukna ábyrgð úr launakerfinu." Fimmtándi dagur verkfalls grunnskólakennara er í dag. Síðasta verkfall þeirra stóð einungis í einn dag þann 27. október 1997. Þar áður voru kennarar í sex vikna verkfalli snemma árs 1995. Kennarar voru einnig ásamt öllum félögum BSRB í ströngu verkfalli árið 1984. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari segir ekki ástæðu til að draga niðurstöðu af fundi samninganefnda sveitarfélaganna og kennara í gær. Hann hefur boðað annan fund klukkan tíu í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×