Innlent

64 prósent fýla með plast í meltingar­vegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Plast sem fannst í meltingarfærum eins fýls árið 2019.
Plast sem fannst í meltingarfærum eins fýls árið 2019. Mynd/umhverfisstofnun
Um 64 prósent fýla voru með plast í meltingarvegi, samkvæmt niðurstöðum vöktunar á magni plasts í meltingarvegi fuglanna árið 2019. Greint er frá á vef Umhverfisstofnunar. Þá voru 13 prósent fýlanna með yfir 0,1 grömm af plasti í meltingarvegi.

Að meðaltali voru 3,7 plastagnir í hverjum fýl. Meðalþyngd plastsins var 0,12 grömm/fýl, sem er sambærilegt við niðurstöður ársins 2018. Þetta er örlítið minna magn en komið hefur fram í eldri rannsóknum á plasti í fýlum hér við land. 

Magn plasts er yfir þeim mörkum sem OSPAR, samningur um verndun hafrýmis á Norðaustur-Atlandshafi, stefnir að. Þannig er miðað við að að innan við 10 prósent fýla hafi yfir 0,1 grömm af plasti í meltingarvegi.

Samanborið við fýla á öðrum hafsvæðum við Norður-Atlantshaf virðist vera minna magn af plasti í fýlum hér við land, miðað við niðurstöður rannsókna árin 2018 og 2019. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×