Viðskipti erlent

Alcoa dregur verulega úr framleiðslu sinni

Alcoa, móðurfélag Fjarðaáls, hefur brugðist við lækkandi álverði á heimsmarkaði og erfiðri fjárhagsstöðu með því að draga verulega úr framleiðslu sinni.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur matsfyrirtækið Moody's lækkað lánshæfiseinkunn Alcoa niður í ruslflokk eða úr Baa3 og í Ba1 með stöðugum horfum.

Ástæðan er linnulaus verðlækkun áls á alþjóðlegum mörkuðum í kjölfar offramboðs og miklar skuldir félagsins.  Skuldir Alcoa nema 8,6 milljörðum dollara eða ríflega 1.000 milljörðum kr.

Frekari lækkun á lánshæfiseinkunninni er  talin ólíkleg á næstunni að því er segir í frétt á Bloomberg fréttaveitunni.

Dregur úr framleiðslunni

Í fréttinni er vitnað í tilkynningu frá Alcoa sem segir að ákvörðun Moody‘s hafi ekki áhrif á stefnumörkun fyrirtækisins fyrir árið í ár.

Alcoa hefur brugðist við erfiðri fjárhagsstöðu sinni með því að loka tveimur framleiðslulínum í álveri sínu í Quebec í Kanada. Þar að auki er Alcoa að íhuga að minnka álframleiðslu sína um 460.000 tonn fyrir lok næsta árs og draga úr framleiðslugetu í nýju álveri sinu í Saudi Arabíu.

Ekki er búist við að erfiðleikar Alcoa hafi áhrif á starfsemi Fjarðaáls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×