Fótbolti

Real ætlar ekki að kaupa Messi og Rooney í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi í leik með Barcelona.
Lionel Messi í leik með Barcelona. Nordic Photos / AFP

Florentino Perez, forseti Real Madrid, hefur útilokað að félagið ætli sér að kaupa til sín stórstjörnunar Wayne Rooney, Lionel Messi og Franck Ribery í sumar.

Real eyddi háum fjárhæðum í leikmenn á síðasta sumri, skömmu eftir að Perez tók við sem forseti. Þrátt fyrir það tókst félaginu ekki að vinna neina titla á liðinni leiktíð og var því Jose Mourinho ráðinn sem knattspyrnustjóri nú í vor.

Perez segir þó að félagið ætli sér ekki að kaupa stærstu nöfn knattspyrnuheimsins nú í sumar.

„Messi er næstbesti leikmaður heims, á eftir Cristiano Ronaldo. Það væri því ekki gott að hafa þá í sama liðinu. Með þessum hætti er meiri samkeppni," sagði Perez við spænska fjölmiðla.

„Hvað Rooney varðar þá erum við nú þegar með mjög góða leikmenn í hans stöðu. Og það er ómögulegt að fá Ribery því hann er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning hjá Bayern."

Perez segir að aðeins 2-3 leikmenn verði keyptir til félagsins í sumar. Brasilíumaðurinn Maicon hjá Inter, gamla félagi Mourinho, hefur verið sterklega orðaður við Real.

„Það liggur ekkert á en Maicon er einn besti leikmaður heims í hans stöðu," sagði Perez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×