Þáttaskil Guðmundur Andri Thorsson skrifar 25. maí 2009 06:00 Í vikunni urðu þáttaskil í umgengni valdhafa við íslenska peningafursta þegar gjört var heyrinkunnugt að tiltekinn fjöldi þeirra hefði fengið réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn á svokölluðum kaupum Mohammeds Bin Khalifa Al-Thani á 25 milljarða króna hlut í Kaupþingi. Sagan af þessum viðskiptum er með miklum ævintýrabrag, svolítið eins og Tinnabók þar sem vantað hefur að vísu sjálfan Tinna - nema hann sé nú kominn fram í sérlegum saksóknara, Ólafi Þór Haukssyni. Nú bregður hins vegar svo við að í fyrsta sinn frá hruninu og fyrsta sinn frá skipbrotinu í Baugsmálinu koma íslensk yfirvöld fram við íslenska útrásargosa eins og vert er: sem grunaða menn um stórfellda fjárglæfra. Í Kastljósi kom svo fram nýr yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, Gunnar Andersen, og lét á sér skilja að vænta megi tíðinda úr rannsókn þess á fjársvikum og feluleikjum með fé á svokölluðum aflandseyjum. Óskandi er að þetta sé fyrirboði þess að þjóðin fái langþráða tilfinningu um að lögum verði komið yfir lagabrjóta og að hún endurheimti eitthvað af þeim auðæfum sem skotið var undan. Auðmennirnir hafa sumir hverjir fengið furðu óáreittir að láta eins og ekkert hafi í skorist í kjölfar hrunsins. Þannig gengu sögur af því að Ólafur Ólafsson, sem yfirvöld hafa nú mannað sig upp í að gera húsleit hjá, hafi verið potturinn og pannan í því gjaldeyrisbraski með íslenskan fisk sem Alþingi neyddist til að setja lög um til að reyna að stöðva og tókst þrátt fyrir hatramma andstöðu Sjálfstæðisflokksins sem alltaf má treysta til að taka afstöðu með hagsmunum braskara gegn þjóðarhagsmunum. Það er erfitt að skilja mann sem tekur sér stöðu gegn sínu fólki til þess eins að afla sér jafn hverfulla verðmæta og svokallaðir peningar eru. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig þeim líður, þessum gaurum sem gleymdu sér í glópagullæðinu og geta ekki snúið aftur til jarðarinnar, vegna stolts eða kannski bara vegna þess að jarðarbúar vilja ekki sjá þá og eru þess vegna enn bara svífandi um á sínum prívathimni í dándimannaleik í villuhverfum Lundúna. Hvernig ætli það sé að vera kallaður þjóðníðingur? Bætir maður sér slíkt upp? Og þá hvernig? Með dóti? Með pening? Með plottum? Eða er þeim alveg sama? Herra auðmaður: „Hvað er auður og afl og hús / ef engin jurt vex í þinni krús?" Veistu ekki að erfiðara er fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga en þig að komast í himnaríki? Alveg sama? Kannski. Kannski er þessum gaurum alveg sama um það þó að þjóð þeirra, ætt þeirra öll - samstúdentar, leikskólafélagar, billjardfélagar, fótboltavinir, gamlir sénsar og ekki-sénsar, gamlir kennarar, hæ-kunningjar, iðnaðarmenn í húsinu þínu, bílasalar sem þú hefur keypt af, gæðakonur sem þú seldir einu sinni merki, gamlir bændur sem þú varst í sveit hjá, gamli skátaforinginn þinn, konan sem afgreiddi þig í sjoppunni - hvað þetta er nú allt saman sem félagsnet fólks hér á landi er riðið úr; allt þetta fólk sem maður nikkar til á förnum vegi og það hugsar: „já þessi"; allt þetta fólk sem maður á tungumálið með og ótal ósagðar menningarlegar tilvísanir sem eru meðal þess sem myndar þjóð - kannski er þessum gaurum alveg sama um það þó að allt þetta fólk, allt þetta samfélag sem kallað er þjóð, hafi á þeim skömm. Kannski skiptir það þessa gaura engu máli að vera fyrirlitnir af heiðvirðu fólki. Kannski er slík lífsfylling fólgin í því að mæta á hvítum skóm og í hvítum fötum eins og drifhvítt sakleysið holdi klætt í snekkjur hjá frægu fólki í Cannes, að orðstír og sæmd skiptir minna máli en að láta taka af sér mynd sem sýni að þú eigir heima meðal dýrðarfólks heimsins, sem þú átt ekki. Ég veit það ekki. Eins og Bangsímon sagði: Það er ekki gott að vita hvernig býflugur hugsa. Og þar með er þetta orðið ágætt. Ágætu lesendur: ég er að hugsa um að segja þetta gott í bili og snúa mér að öðrum skrifum. Þessi törn hefur staðið nú í næstum tvö ár og orðið tímabært að hvíla mig og lesendur á þessum skrifum eftir allt það sem gengið hefur á og maður hefur þurft að tjá sig um vikulega - jafn mikið skoðanaviðrini og ég er nú í raun og veru. Ég þakka lesendum góð viðbrögð - og slæm - og starfsmönnum blaðsins ánægjulega samvinnu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Verstu kennarar í heimi Gígja Bjargardóttir Skoðun Hinir vondu fjármagnseigendur! Guðmundur Ragnarsson Skoðun Óheiðarlegur óskalisti Sjálfstæðisflokksins Finnur Ricart Andrason Skoðun Vertu réttu megin við línuna Benedikta Guðrún Svavarsdóttir Skoðun Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun Gaslýsum almenning Elínrós Erlingsdóttir Skoðun Er húsið tómt? Bjarni Benediktsson Skoðun Hægriflokkarnir boða ójöfnuð fyrir íslenska skóla Dagbjört Hákonardóttir Skoðun „Að ganga á bak orða sinna“ – Hvað þýðir það eiginlega? Ragnheiður Stephensen Skoðun Íslensku menntaverðlaunin – íslenskt skólastarf Jón Torfi Jónasson Skoðun
Í vikunni urðu þáttaskil í umgengni valdhafa við íslenska peningafursta þegar gjört var heyrinkunnugt að tiltekinn fjöldi þeirra hefði fengið réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn á svokölluðum kaupum Mohammeds Bin Khalifa Al-Thani á 25 milljarða króna hlut í Kaupþingi. Sagan af þessum viðskiptum er með miklum ævintýrabrag, svolítið eins og Tinnabók þar sem vantað hefur að vísu sjálfan Tinna - nema hann sé nú kominn fram í sérlegum saksóknara, Ólafi Þór Haukssyni. Nú bregður hins vegar svo við að í fyrsta sinn frá hruninu og fyrsta sinn frá skipbrotinu í Baugsmálinu koma íslensk yfirvöld fram við íslenska útrásargosa eins og vert er: sem grunaða menn um stórfellda fjárglæfra. Í Kastljósi kom svo fram nýr yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, Gunnar Andersen, og lét á sér skilja að vænta megi tíðinda úr rannsókn þess á fjársvikum og feluleikjum með fé á svokölluðum aflandseyjum. Óskandi er að þetta sé fyrirboði þess að þjóðin fái langþráða tilfinningu um að lögum verði komið yfir lagabrjóta og að hún endurheimti eitthvað af þeim auðæfum sem skotið var undan. Auðmennirnir hafa sumir hverjir fengið furðu óáreittir að láta eins og ekkert hafi í skorist í kjölfar hrunsins. Þannig gengu sögur af því að Ólafur Ólafsson, sem yfirvöld hafa nú mannað sig upp í að gera húsleit hjá, hafi verið potturinn og pannan í því gjaldeyrisbraski með íslenskan fisk sem Alþingi neyddist til að setja lög um til að reyna að stöðva og tókst þrátt fyrir hatramma andstöðu Sjálfstæðisflokksins sem alltaf má treysta til að taka afstöðu með hagsmunum braskara gegn þjóðarhagsmunum. Það er erfitt að skilja mann sem tekur sér stöðu gegn sínu fólki til þess eins að afla sér jafn hverfulla verðmæta og svokallaðir peningar eru. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig þeim líður, þessum gaurum sem gleymdu sér í glópagullæðinu og geta ekki snúið aftur til jarðarinnar, vegna stolts eða kannski bara vegna þess að jarðarbúar vilja ekki sjá þá og eru þess vegna enn bara svífandi um á sínum prívathimni í dándimannaleik í villuhverfum Lundúna. Hvernig ætli það sé að vera kallaður þjóðníðingur? Bætir maður sér slíkt upp? Og þá hvernig? Með dóti? Með pening? Með plottum? Eða er þeim alveg sama? Herra auðmaður: „Hvað er auður og afl og hús / ef engin jurt vex í þinni krús?" Veistu ekki að erfiðara er fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga en þig að komast í himnaríki? Alveg sama? Kannski. Kannski er þessum gaurum alveg sama um það þó að þjóð þeirra, ætt þeirra öll - samstúdentar, leikskólafélagar, billjardfélagar, fótboltavinir, gamlir sénsar og ekki-sénsar, gamlir kennarar, hæ-kunningjar, iðnaðarmenn í húsinu þínu, bílasalar sem þú hefur keypt af, gæðakonur sem þú seldir einu sinni merki, gamlir bændur sem þú varst í sveit hjá, gamli skátaforinginn þinn, konan sem afgreiddi þig í sjoppunni - hvað þetta er nú allt saman sem félagsnet fólks hér á landi er riðið úr; allt þetta fólk sem maður nikkar til á förnum vegi og það hugsar: „já þessi"; allt þetta fólk sem maður á tungumálið með og ótal ósagðar menningarlegar tilvísanir sem eru meðal þess sem myndar þjóð - kannski er þessum gaurum alveg sama um það þó að allt þetta fólk, allt þetta samfélag sem kallað er þjóð, hafi á þeim skömm. Kannski skiptir það þessa gaura engu máli að vera fyrirlitnir af heiðvirðu fólki. Kannski er slík lífsfylling fólgin í því að mæta á hvítum skóm og í hvítum fötum eins og drifhvítt sakleysið holdi klætt í snekkjur hjá frægu fólki í Cannes, að orðstír og sæmd skiptir minna máli en að láta taka af sér mynd sem sýni að þú eigir heima meðal dýrðarfólks heimsins, sem þú átt ekki. Ég veit það ekki. Eins og Bangsímon sagði: Það er ekki gott að vita hvernig býflugur hugsa. Og þar með er þetta orðið ágætt. Ágætu lesendur: ég er að hugsa um að segja þetta gott í bili og snúa mér að öðrum skrifum. Þessi törn hefur staðið nú í næstum tvö ár og orðið tímabært að hvíla mig og lesendur á þessum skrifum eftir allt það sem gengið hefur á og maður hefur þurft að tjá sig um vikulega - jafn mikið skoðanaviðrini og ég er nú í raun og veru. Ég þakka lesendum góð viðbrögð - og slæm - og starfsmönnum blaðsins ánægjulega samvinnu.
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun