Viðskipti innlent

Hóparnir útiloka ekki samstarf

Á fjórða þúsund einstaklingar hafa skráð sig fyrir á áttunda milljarð króna til kaupa á hlutabréfum í Símanum hjá tveimur hópum. Hóparnir tveir útiloka ekki samstarf. Tveir hópar hafa verið að taka á móti hlutafjárloforðum frá einstaklingum sem hafa áhuga á að kaupa hlutabréf í Símanum. Agnes Bragadóttir, fréttastjóri á Morgunblaðinu, og Orri Vigfússon athafnamaður fara fyrir öðrum hópnum og hittu þau Jafet Ólafsson á fundi í dag. Agnes útilokar ekki samstarf við hinn hópinn og telur það gráupplagt að hann „hoppi upp í“ hjá hennar hópi því það sama sé haft að leiðarljósi sé báðum: fjöldahreyfing.  Ingvar Guðmundsson verkfræðingur fer fyrir hinum hópnum og safnar loforðum á vefsíðu sem hann heldur úti, logiledger.com. Hann segist hafa reiknað með að ná einum milljarði í dag í besta falli en nú líti út fyrir að upphæðin nái jafnvel tveimur milljörðum. Ingvar segir þetta ekki bindandi loforð en þó sé þetta af fullri alvöru hjá þeim sem hafi skráð sig fyrir hlut. Fjármálastofnanir hafa sýnt framtakinu áhuga og segja Agnes og Orri að þau vonist til að stofnfundur söfnunarinnar verði haldinn í næstu viku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×